Hollendingurinn Ruud van Nistelrooy hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Leicester City.
Hann tekur við af Steve Cooper, sem var rekinn síðastliðinn sunnudag, og skrifar undir tveggja og hálfs árs samning.
Van Nistelrooy verður í stúkunni er Leicester mætir Brighton á laugardag og mætir síðan á hliðarlínuna þegar Leicester og West Ham mætast í Leicester á þriðjudag.
Hollenski stjórinn stýrði Manchester United til bráðabirgða eftir að Erik ten Hag fékk reisupassann og áður en Rúben Amorim var ráðinn.
Hann var mikill markaskorari á sínum tíma og raðaði inn mörkum fyrir Real Madrid og Manchester United.