Chelsea er nú ósigrað í síðustu fimm deildarleikjum eftir að liðið vann sannfærandi sigur á Aston Villa í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag, 3:0.
Eftir leikinn er Chelsea í 3. sæti deildarinnar með 25 stig en Aston Villa er fallið niður í 12. sæti með 19 stig.
Nicolas Jackson skoraði sjöunda mark sitt á tímabilinu og kom Chelsea yfir á 7. mínútu með góðu skoti eftir fyrirgjöf frá Marc Cucurella.
Það var síðan argentínski miðjumaðurinn Enzo Fernandez sem tvöfaldaði forystu Chelsea á 36. mínútu þegar hann skoraði eftir undirbúning Cole Palmer. Þetta var annað mark Fernandez í síðustu tveimur deildarleikjum en hann skoraði einnig gegn Leicester á dögunum.
Cole Palmer kórónaði síðan flotta frammistöðu heimamanna með marki á 83. mínútu eftir sendingu frá Noni Madueke.
Tottenham fékk þá Fulham í heimsókn en um Lundúnarslag var að ræða. Leikurinn var afar jafn og endaði með jafntefli, 1:1.
Eftir leikinn er Tottenham í 7. sæti með 20 stig en Fulham er í 10. sæti með 19 stig.
Brennan Johnson skoraði sitt fimmta mark í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili á 54. mínútu og kom Tottenham yfir. Timo Werner átti þá frábæra fyrirgjöf sem Brennan Johnson skilaði í markið með góðu skoti, óverjandi fyrir Bernd Leno í marki Fulham.
Gestirnir jöfnuðu hinsvegar leikinn á 67. mínútu þegar fyrirliði þeirra, Tom Cairney, skoraði með gullfallegu skoti fyrir utan teig.
Cairney hafði ekki sagt sitt síðasta í þessum leik en hann lét reka sig af velli á 84. mínútu þegar hann fór í slæma tæklingu á Dejan Kulusevski. Darren Bond, dómari leiksins, gaf upprunalega gult spjald en VAR dómarinn sendi hann í skjáinn og breytti Bond dómi sínum og rak fyrirliða Fulham af velli.
Þrátt fyrir að vera manni fleiri og sjö mínútum hafi verið bætt við leikinn, náði Tottenham ekki að læða inn sigurmarki og endaði leikurinn því með jafntefli.