Eiður Smári Guðjohnsen og Kjartan Henry Finnbogason voru gestir Harðar Magnússonar í Vellinum á Símanum Sport á sunnudag.
Þegar talið barst að leik Liverpool og Manchester City, sem endaði með öruggum sigri Liverpool, 2:0, þá hrifust gestirnir af leik Liverpool en óttuðust að færanýting liðsins myndi koma í bakið á þeim.
„Þeir voru klaufar, þeir byrjuðu leikinn af þvílíkum krafti. Maður hefði haldið að City myndi koma út og ætla að sanna sig upp á nýtt en það var akkúrat öfugt í þessum leik. Liverpool vann Real Madrid á miðvikudaginn á meðan City gerði jafntefli við Feyenoord deginum áður.
Leikmenn Liverpool voru klaufar en þeir hefðu svo sannarlega getað verið tvö, þrjú, jafnvel fjögur núll yfir í hálfleik og maður var svolítið hræddur fyrir þeirra hönd að þetta myndi koma niður á þeim en það gerði það svo sannarlega ekki og þeir kláruðu leikinn tiltölulega auðveldlega,“ sagði Kjartan Henry.
Hörður spurði þá Eið hvort að leikurinn hafi komið honum á óvart sem Eiður svaraði játandi.
„Hann gerði það af því að við erum að horfa á leik núna og hugsuðum að Manchester City er búið að vera í þessu ferli núna, tapa fimm, sex leikjum í röð sem hefur aldrei gerst undir stjórn Guardiola,“ sagði Eiður.
„City mætti á Anfield eltandi Liverpool og þurfti að vinna leikinn en í dag fannst mér við fá staðfestingu á því að Liverpool er bara að fara að vinna deildina,“ sagði Eiður Smári.
Umræðuna um Liverpool og Manchester City má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.