Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, kvaðst hafa verið undrandi á söngvum stuðningsmanna Liverpool í sinn garð í gær þegar Liverpool vann uppgjör stórliðanna í ensku úrvalsdeildinni á sannfærandi hátt, 2:0.
City tapaði sínum fjórða leik í röð í deildinni og á Anfield hljómaði söngur sem er kunnuglegur á enskum fótboltavöllum: „Þú verður rekinn með morgni."
„Ég átti ekki von á þessu á Anfield, við þessu bjóst ég ekki af fólkinu í Liverpool, en þetta er allt í fína, þetta er hluti af leiknum og ég skil þetta fullkomlega. Við höfum átt ótrúlega slagi í gegnum tíðina og ég ber mikla virðingu fyrir þeim," sagði Guardiola þegar hann var spurður út í söngvana eftir leikinn.
City hefur ekki unnið í síðustu sjö leikjum sínum í úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni og slíkan kafla hefur Guardiola aldrei áður gengið í gegnum á farsælum ferli.
„Þeir vilja láta reka mig á öllum völlum núna, þetta byrjaði í Brighton. Kannski er þetta rétt hjá þeim, miðað við úrslitin hjá okkur," sagði Spánverjinn ennfremur en hann framlengdi samning sinn við City til tveggja ára í síðasta mánuði.
Fréttamenn bentu á að Guardiola hefði gengið í átt að stuðningsmönnum City eftir leikinn og haldið sex fingrum á lofti, til að minna þá á að félagið hefði sex sinnum orðið enskur meistari undir hans stjórn.