Hann reynir ekki að herma eftir Klopp

Arne Slot kallar á sína menn í leiknum gegn Manchester …
Arne Slot kallar á sína menn í leiknum gegn Manchester City á Anfield í gær. AFP/Adrian Dennis

Joe Gomez, varnarmaður Liverpool, segir að lykillinn á bak við frábæra byrjun liðsins undir stjórn nýja stjórans, Arne Slots, sé að Hollendingurinn sé ekki að reyna að líkja eftir forvera sínum, Jürgen Klopp.

Byrjun Liverpool undir stjórn Hollendingsins hefur verið nánast ævintýri líkust en liðið hefur á síðustu fimm dögum unnið sannfærandi sigra gegn Real Madrid og Manchester City, og unnið 18 af fyrstu 20 leikjum sínum á tímabilinu.

„Ég held að aðalatriðið sé að hann hefur ekki reynt að feta í fótspor Jürgens eða vera Jürgen,“ sagði Gomez við BBC eftir leikinn gegn City í gær.

„Arfleið Jürgen er þegar komin í sögubækur félagsins og verður ekki  breytt. Slot hefur verið hann sjálfur. Þetta hefur verið góður tími og allt þjálfarateymið er mjög jákvætt. En verkinu er ekki lokið. Við höfum ekki unnið neitt. Þetta er frábær byrjun og hann minnir okkur stöðugt á að halda okkar striki. Hann veit hversu mikil reynsla er í hópnum,“ sagði Gomez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert