Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah er í viðræðum við forráðamenn franska stórliðsins París SG.
Það er Andy Brassell, fjölmiðlamaður hjá talkSport, sem greinir frá þessu en samningur Salah við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool rennur út næsta sumar.
Salah, sem er 32 ára gamall, hefur verið besti leikmaður Liverpool á tímabilinu og skorað 11 mörk, ásamt því að leggja upp önnur sjö, í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Hann gekk til liðs við Liverpool frá Roma sumarið 2017 fyrir tæplega 37 milljónir punda en alls á hann að baki 369 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 224 mörk og lagt upp önnur 100.
Samningaviðræður Salah og Liverpool virðast ekki ganga vel og nú bendir allt til þess að hann muni róa á önnur mið næsta sumar.