Ruud van Nistelrooy, nýráðinn knattspyrnustjóri Leicester City, kveðst eiga óuppgerðar sakir við framherja liðsins, hinn þrautreynda Jamie Vardy.
Árið 2015 var Vardy óstöðvandi í framlínu Leicester, í aðdraganda þess að félagið varð enskur meistari í fyrsta og eina skiptið til þessa.
Hann skoraði þá í ellefu leikjum í röð í úrvalsdeildinni og sló með því met - og handhafi þess var enginn annar en Ruud van Nistelrooy sem hafði áður skoraði í tíu leikjum í röð fyrir Manchester United.
Nú leikur Vardy undir stjórn Hollendingsins sem rifjaði þetta upp á fréttamannafundi í dag.
„Það er að sjálfsögðu eitt vandamál til staðar. Hann tók metið mitt. Það var það fyrsta sem ég sagði við hann, þetta mál verðum við að leysa áður en samstarf okkar hefst," sagði van Nistelrooy og glotti.
„Á sínum tíma sendi ég honum kveðju og óskaði honum alls hins besta. Nú hittumst við hérna níu árum síðar. Það er magnað hvernig hlutirnir geta þróast en þetta er skemmtilega saga," sagði Ruud van Nistelrooy brosandi á fréttamannafundinum í dag.
Fyrsti leikur Leicester undir hans stjórn er annað kvöld þegar West Ham kemur í heimsókn í Miðlöndin.
Vardy er á sínu þrettánda tímabili með Leicester en hann kom til félagsins frá Fleetwood Town árið 2012 og hefur skorað 178 mörk í 416 deildarleikjum fyrir félagið.