Alisson fer aftur í markið

Caoimhin Kelleher hefur leikið afar vel í marki Liverpool að …
Caoimhin Kelleher hefur leikið afar vel í marki Liverpool að undanförnu en er eftir sem áður í hlutverki varamarkvarðar. AFP/Paul Ellis

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að brasilíski markvörðurinn Alisson Becker komi aftur inn í byrjunarlið félagsins þegar hann hafi náð sér algjörlega af sínum meiðslum.

Talsverð umræða hefur verið um markvarðamálin hjá Liverpool þar sem Írinn Caoimhin Kelleher hefur leikið frábærlega í marki liðsins að undanförnu, á meðan Alisson hefur verið frá keppni síðan í byrjun október vegna tognunar.

„Ég þarf að taka stórar ákvarðanir í hvert skipti sem ég vel byrjunarliðið okkar vegna þess hversu margir hæfileikaríkir leikmenn eru í okkar hópi. Ég held að ég hafi talað skýrt um stöðuna í markmannsmálunum en við bíðum eftir því að Alisson verði algjörlega orðinn heill því Caoimhin spilar það vel að ég færi aldrei að setja Alisson í markið þegar hann er bara 50 prósent tilbúinn,“ sagði Slot á fréttamannafundi á Anfield í dag.

Alisson er aðalmarkvörður Liverpool að sögn Arne Slot.
Alisson er aðalmarkvörður Liverpool að sögn Arne Slot. AFP/Paul Ellis

„Það væri ekki gott fyrir Alisson og ekki gott fyrir liðið. Hann er á réttri leið, þarf kannski nokkra daga aukalega, en hann verður kominn í markið fyrir lok desember ef hlutirnir þróast áfram eins og þeir hafa gert að undanförnu,“ sagði Arne Slot.

Liverpool leikur gegn Newcastle á útivelli í úrvalsdeildinni annað kvöld en það er þriðji leikur liðsins á átta dögum eftir 2:0-sigrana gegn Real Madrid og Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert