Arne Slot: Þetta var brandari (myndskeið)

Arne Slot var í góðu skapi á fréttamannafundinum í morgun.
Arne Slot var í góðu skapi á fréttamannafundinum í morgun. AFP/Paul Ellis

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, sló á létta strengi í morgun þegar hann var spurður á fréttamannafundi hvort Mohamed Salah yrði áfram í röðum félagsins á næsta keppnistímabili.

Spurning kom í kjölfarið á því að Salah sagði eftir sigur Liverpool á Manchester City, 2:0, á sunnudaginn, að þetta gæti hafa verið hans síðasti heimaleikur í deildinni gegn City. Salah hefur verið orðaður við París SG og hefur viðrað óánægju með að hafa ekki  verið boðinn nýr samningur hjá Liverpool.

„Kannski veit Mo meira um kærurnar 115 en aðrir svo hann reiknar ekki með því að City verði í deildinni á næsta tímabili,“ svaraði Hollendingurinn og hló, en þar vitnaði hann til kærumálanna á hendur City sem gætu kostað félagið sæti í deildinni.

„En ég býst við því að þeir verði í deildinni og leiðinlega svarið mitt er að ég get ekki rætt samningsmálin hjá Mo á svona fundum. Sennilega hef ég þegar sagt of mikið með þessum brandara - og ég endurtek, þetta var brandari!“ sagði Arne Slot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert