Þegar dregið var til þriðju umferðarinnar í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í gærkvöld kom upp sú staða að feðgar geta mæst.
Hinn þrautreyndi Ashley Young, sem er orðinn 39 ára gamall, spilar með enska úrvalsdeildarliðinu Everton. Hann hefur leikið 11 af 13 leikjum liðsins í deildinni í vetur.
Sonur hans, Tyler Young, er leikmaður Peterborough í C-deildinni og liðin drógust saman en viðureign þeirra fer fram á Goodison Park, heimavelli Everton, 11. janúar.
Hvort Young fái tækifæri í leiknum er svo spurning en hann hefur ekki spilað deildarleik fyrir Peterborough en er í leikmannahópnum og hefur leikið einn bikarleik á tímabilinu.