Cole Palmer, leikmaður Chelsea, er knattspyrnumaður ársins 2024 á Englandi í árlegu kjöri Samtaka stuðningsmanna, FSA.
Um 250 þúsund manns greiddu atkvæði í kosningunni og Palmer sigraði með nokkrum yfirburðum.
Næstir á eftir honum voru Erling Haaland og Rodri frá Manchester City, Bukayo Saka frá Arsenal, Ollie Watkins frá Aston Villa og Mohamed Salah frá Liverpool en Salah hefur þrisvar unnið þessa kosningu.
Palmer hefur rakað að sér viðurkenningum á þessu ári en hann var einnig kjörinn besti ungi leikmaðurinn, bæði hjá Samtökum atvinnuknattspyrnumanna og ensku úrvalsdeildinni, þá var hann valinn besti leikmaður enska landsliðsins, sem og leikmaður ársins hjá Chelsea.