„Þetta eru falsfréttir!“

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP/Oli Scarff

Nasser Al-Khelaifi, stjórnarformaður París SG í Frakklandi, segir ekkert til í þeim sögusögnum að félagið sé í viðræðum við egypska knattspyrnumanninn Mohamed Salah.

Salah, sem er 32 ára gamall, var sterklega orðaður við Frakklandsmeistarana í gær hjá miðlum á borð við talkSport og L'Equipe í Frakklandi.

Samningur Salah við Liverpool rennur út næsta sumar og er honum því frjálst að semja við annað félag strax eftir áramót en það bendir flest til þess að Egyptinn sé á förum frá Bítlaborginni.

Myndi styrkja öll lið

„Þetta eru falsfréttir!“ sagði Al-Khelaifi í samtali við Sky í Þýskalandi þegar hann var spurður út í mögulega félagaskipti Egyptans.

„Hann er magnaður leikmaður, alveg ótrúlegur, en hann hefur aldrei verið á lista hjá okkur ef ég á að vera alveg hreinskilinn með það.

Það er klárt mál að hann myndi styrkja hvaða lið sem er en orðrómar um að við séum í viðræðum við hann eru falsfréttir,“ bætti Al-Khelaifi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert