Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa boðið þeim Virgil van Dijk og Mohamed Salah, lykilmönnum liðsins, nýjan samning.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en báðir verða þeir samningslausir næsta sumar og er því frjálst að ræða við önnur félög strax í janúar á næsta ári.
Van Dijk, sem er 33 ára gamall, hefur verið lykilmaður í varnarleik liðsins undanfarin ár og er fyrirliði liðsins í dag.
Salah hefur verið besti sóknarmaður liðsins undanfarin ár en hann hefur skorað 11 mörk og lagt upp önnur sjö til viðbótar í 13 leikjum í úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Þá er félagið einnig í viðræðum við Trent Alexander-Arnold, bakvörð liðsins, um nýjan samning en hann verður einnig samningslaus næsta sumar.