Van Dijk og Liverpool ósammála um lykilatriði

Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. AFP/Oli Scarff

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa boðið fyrirliða liðsins, Virgil van Dijk, nýjan samning. 

Van Dijk, sem er 33 ára gamall, verður samningslaus næsta sumar og er því frjálst að ræða við önnur félag en The Athletic greindi frá því í dag að félagið hefði boðið hollenska miðverðinum nýjan samning.

The Mirror greinir nú frá því að van Dijk vilji fá umtalsverða launahækkun, eigi hann að skrifa undir nýjan samning, en hann er sagður þéna um 220.000 pund á viku í Bítlaborginni. Það samsvarar um 38,5 milljónum íslenskra króna.

Í frétt Mirror kemur einnig fram að samningaviðræðurnar strandi einna helst á lengd samningsins en forráðamenn Liverpool eru tilbúnir að bjóða honum tveggja ára samning á meðan Hollendingurinn vill fá þriggja ára samning.

Forráðamenn Liverpool þurfa að hafa hraðar hendur á næstu dögum því van Dijk er frjálst að ræða við önnur félag strax í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert