Arsenal er ný útgáfa af Stoke City

Declan Rice er sérfræðingur í stórhættulegum hornspyrnum Arsenal.
Declan Rice er sérfræðingur í stórhættulegum hornspyrnum Arsenal. AFP/Patricia de Melo Moreira

Arsenal hefur skorað hvorki fleiri né færri en 22 mörk eftir hornspyrnur á þessu keppnistímabili, í öllum mótum, og gerði í gærkvöld bæði mörkin í sigri á Manchester United, 2:0, á þann hátt.

Dimitar Berbatov, búlgarski framherjinn sem lék með Tottenham, Manchester United og Fulham á árunum 2006 til 2014 og skoraði 94 mörk í ensku úrvalsdeildinni, sagði í umræðum á Amazon Prime eftir leikinn að Arsenal minnti sig á Stoke City.

Lið Stoke var frægt fyrir að skora mikið af mörkum eftir föst leikatriði, horn, löng innköst frá Rory Delap og aukaspyrnur, sem ekki síst rötuðu á kollinn á hinum tveggja metra háa Peter Crouch, þegar liðið lék í úrvalsdeildinni á árunum 2008 til 2018.

„Þetta er eina deildin í heiminum þar sem leikmenn hópast í kringum markvörðinn, hrinda og ýta hver öðrum, og menn verða að vera sterkir í þessum slag. Arsenal er ný útgáfa af Stoke City. Liðið treystir mikið á föst leikatriði sem geta fært því sigra, eins og gerðist í kvöld,“ sagði Berbatov eftir leikinn í gærkvöld.

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, kom líka inn á þetta í viðtölum eftir leikinn.

„Það er ótrúlegt hvernig þeir fara að því að breyta gangi leikja. Stundum eru þeir alls ekki með neina yfirburði, og leikurinn í kvöld var jafn og kaflaskiptur, og svo koma þessi föstu leikatriði sem breyta leiknum,“ sagði Amorim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert