„Vil ekki vinna með 115 kærur á bakinu“

José Mourinho og Pep Guardiola.
José Mourinho og Pep Guardiola. AFP/Ozan Kose/Oli Scarff

Portúgalski knattspyrnustjórinn José Mourinho heldur áfram að skjóta föstum skotum á bæði Englandsmeistara Manchester City og Pep Guardiola, stjóra liðsins.

Ekki er langt síðan að Mourinho ýjaði að því að mögulega yrði Manchester United krýndur Englandsmeistari fyrir tímabilið 2017-18, þegar hann var stjóri liðsins, vegna meintra brota Manchester City en félagið er sakað um 115 brot á fjármálareglum úrvalsdeildarinnar.

Lyfti sex fingrum á Anfield

Um síðustu helgi tapaði Manchester City fyrir Liverpool á Anfield, 2:0, í 13. umferð úrvalsdeildarinnar og sungu stuðningsmenn Liverpool meðal annars um það að Guardiola yrði rekinn eftir tapið.

Guardiola brást við með því að lyfta sex fingrum á loft til merkis um það að City hefði unnið úrvalsdeildina sex sinnum undir hans stjórn.

Mourinho brást við á svipuðum nótum á Anfield árið 2018 þegar stuðningsmenn Liverpool sungu um það að hann yrði rekinn, rétt áður en honum var sagt upp störfum hjá United, en þá lyfti Portúgalinn upp þremur fingrum til marks um þá Englandsmeistaratitla sem hann hafði unnið.

Vann á sanngjarnan hátt

„Ég vona að ég verði ekki rekinn,“ sagði Guardiola þegar hann var spurður út í atvikið á Anfield en Spánverjinn var um leið minntur á örlög Mourinho stuttu eftir að hann lyfti upp þremur fingrum á Anfield.

„Hann vann þrjá, ég hef unnið sex, en það er samt verið að líkja okkur saman,“ sagði Guardiola en ummælin virtust ekki fara vel í Mourinho.

„Ég vann úrvalsdeildina á sanngjarnan hátt. Þegar ég tapaði þá óskaði ég andstæðingunum til hamingju því þeir voru einfaldlega betri en ég. Ég vil ekki vinna með 115 kærur á bakinu,“ bætti Mourinho við á blaðamannafundi Fenerbache þar sem hann er stjóri núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert