Fulham og Arsenal gerðu 1:1-jafntefli í 15. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í dag.
Úrslitin þýða að Arsenal situr áfram í öðru sæti með 29 stig en Fulham er í tíunda sæti með 23 stig.
Arsenal byrjaði viðureignina af krafti og var töluvert meira með boltann á upphafsmínútunum. William Saliba fékk gott skallafæri á þriðju mínútu eftir hornspyrnu Declan Rice en skalli Frakkans endaði framhjá markinu.
Á 11. mínútu komst Fulham yfir gegn gangi leiksins. Kenny Tete kom með stungusendingu á Raul Jiménez sem skoraði með glæsilegri afgreiðslu úr þröngu færi.
Arsenal var áfram með stjórn á leiknum í kjölfarið. Fulham-menn voru þó þéttir fyrir og náði Arsenal lítið að skapa sér færi. Staðan í hálfleik 1:0, Fulham í vil.
Arsenal jafnaði metin snemma í síðari hálfleik og kom markið úr hornspyrnu. Fyrirgjöf Rice úr hornspyrnunni fann Kai Havertz sem skallaði boltann fyrir markið á William Saliba sem skoraði af stuttu færi.
Á 70. mínútu fékk Thomas Partey frábært færi til að koma Arsenal yfir eftir hornspyrnu frá Rice en skalli hans endaði framhjá markinu.
Arsenal setti mikla pressu á Fulham á lokamínútunum og á 87. mínútu kom Bukayo Saka boltanum í netið. Markið stóð hins vegar ekki þar sem Gabriel Martinelli var rangstæður í aðdragandanum.
Færin urðu ekki fleiri og lokaniðurstaðan því 1:1-jafntefli.