Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa boðið egypska sóknarmanninum Mohamed Salah nýjan samning.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Salah, sem er 32 ára gamall, verður samningslaus næsta sumar.
Salah bætist því í hóp þeirra Virgils van Dijks og Trents Alexanders-Arnolds sem fengu einnig samningstilboð frá félaginu í síðustu viku en núgildandi samningar þeirra renna allir út næsta sumar.
Salah hefur verið einn besti leikmaður Liverpool á tímabilinu og skoraði 15 mörk og hefur lagt upp önnur 12 mörk í öllum keppnum fyrir félagið á leiktíðinni.
Þá er hann markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar ásamt Norðmanninum Erling Haaland með 13 mörk á tímabilinu en hann hefur skorað 226 mörk í 370 leikjum fyrir Liverpool frá því hann gekk til liðs við félagið frá Roma, sumarið 2017, fyrir 37 milljónir punda.