Af hverju ættum við að breyta nálgun okkar?

Ange Postecoglou.
Ange Postecoglou. AFP/Justin Tallis

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, gefur lítið fyrir ummæli sparkspekingsins Jamie Carragher á Sky Sports, sem segir Postecoglou stundum verða að breyta leikskipulagi sínu. Hann geti ekki alltaf hjakkað í sama farinu.

Tottenham tapaði 3:4 fyrir Chelsea í stórleik í ensku úrvalsdeildinni í gær eftir að hafa komist 2:0 yfir snemma leiks. Undir stjórn Postecoglou spilar Tottenham hápressu og er með varnarlínu sína framarlega á vellinum með þeim afleiðingum að svæði opnast gjarna sem getur þýtt góð færi fyrir andstæðinginn.

„Knattspyrnustjórinn heldur áfram að segja okkur að hann muni ekki breyta neinu. Ég get ekki ímyndað mér neinn stjóra sem ég spilaði fyrir hjá Liverpool sem hefði sagt okkur hafa spilað vel eftir að hafa fengið á okkur fjögur mörk,“ sagði Carragher eftir leikinn í gær.

Örvænting kostaði okkur

„Þetta var nógu gott fyrir okkur til þess að komast yfir í leiknum þannig að ég skil ekki af hverju við ættum að breyta nálgun okkar. Stundum hugsa ég að vegna stöðunnar sem við erum í séum við örvæntingarfullir að reyna að breyta rétt.

Við þurfum líklega að sýna meiri ró. Strákarnir eru örvæntingarfullir að gera rétt og því miður kostaði það okkur,“ sagði Postceoglou í samtali við breska ríkisútvarpið eftir leikinn og vísaði þar til að mynda til tveggja vítaspyrna sem Tottenham fékk á sig í leiknum í gær.

Tottenham er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 15 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert