Keppinautarnir renna ekki eins og Cucurella

Marc Cucurella og Enzo Maresca.
Marc Cucurella og Enzo Maresca. AFP/Paul Ellis

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, var að vonum hæstánægður með glæsilegan endurkomusigur á Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í gær en ítrekaði að hann teldi lærisveina sína ekki í stakk búna til þess að berjast um Englandsmeistaratitilinn.

„Við erum komnir umfram væntingar mínar hvað það varðar hvernig við spilum með boltann, án boltans og þegar kemur að úrslitum. Við erum samt ekki tilbúnir að berjast um titilinn.

Arsenal, City og Liverpool renna líklega ekki á rassinn eins og Cucurella gerði,“ sagði hinn ítalski Maresca í samtali við breska ríkisútvarpið eftir leikinn í gær.

Erum langt á eftir þessum liðum

Vísaði hann þar með glettni til þess þegar vinstri bakvörðurinn Marc Cucurella rann tvisvar snemma leiks og missti boltann með þeim afleiðingum að Tottenham skoraði tvisvar og komst í 2:0.

„En í fúlustu alvöru erum við ekki tilbúnir. Við erum langt á eftir þessum liðum en við einbeitum okkur að daglegum verkefnum og því að bæta liðið.

Áætlunin eða hugmyndin er sú að láta leikmenn ekki hægja neitt á sér. Þeir mega ekki slá slöku við því þeir vita að annar leikmaður bíður eftir því að fá sitt tækifæri,“ bætti Ítalinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert