Knattspyrnumaðurinn Michail Antonio, sóknarmaður West Ham United, hefur gengist undir skurðaðgerð eftir að hafa lent í bílslysi í Essex á Englandi á laugardag.
Í tilkynningu frá West Ham segir að Antonio hafi farið undir hnífinn vegna „brots á neðri útlim“ en greinir ekki nánar hvar jamaíski landsliðsmaðurinn brotnaði.
Antonio mun dvelja á sjúkrahúsi næstu daga en ástand hans er stöðugt og getur hann tjáð sig með eðlilegum hætti.
Í tilkynningunni þakkar West Ham knattspyrnuhreyfingunni fyrir auðsýndan stuðning og mun félagið veita frekari upplýsingar þegar við á.