Frakkinn Louis Saha, fyrrverandi knattspyrnumaður enska félagsins Manchester United, vill að samlandi sinn Paul Pogba snúi aftur til Manchester-borgar.
Pogba rifti samningi sínum við Juventus í síðasta mánuði en hann var úrskurðaður í fjögurra ára keppnisbann af ítalska lyfjaeftirlitinu vegna lyfjamisferlis á síðasta ári en Alþjóðaíþróttadómstóllinn stytti bann Pogba í 18 mánuði fyrr á þessu ári.
Hann getur því byrjað að keppa á nýjan leik í mars á næsta ári og hefur meðal annars verið orðaður við félög í bæði Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu.
Pogba gekk til liðs við United árið 2009 og lék með unglingaliði félagsins til 2012 þegar hann samdi við Juventus. Hann snéri svo aftur til Englands árið 2016 og lék með United út keppnistímabilið 2021-22.
Louis Saha vill sjá hann hjá Manchester United á nýjan leik.
„Þegar ég hugsa um Pogba þá eru fleiri kostir við að kaupa hann en ekki. Manchester United ætti að vera á eftir honum í janúar.
Í rauninni eiga öll bestu liðin í ensku deildinni að sjá þetta sem frábært tækifæri,“ sagði Saha við DailyExpress.