Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir það ekki geta talist eðlilegt að þurfa að fljúga í átta tíma til þess að spila leik í Sambandsdeild Evrópu.
Það þarf liðið einmitt að gera fyrir leik Chelsea gegn Astana í Almaty í Kasakstan á morgun. Flugtíminn er lengri en ella vegna þess að flugvélin þarf að taka á sig sveig til þess að fljúga ekki yfir átakasvæði í Úkraínu, Rússlandi og Sýrlandi.
„Átta tímar í aðra áttina er ekki eðlilegur tími til þess að ferðast í leik en við verðum að fara þangað. Við verðum að spila og viljum gera okkar besta ásamt því að hugsa um næsta leik,“ sagði Maresca á fréttamannafundi í dag.
Leikmenn og starfslið Chelsea fljúga aftur til baka um nóttina og lenda á föstudagsmorgni áður en liðið mætir Brentford í ensku úrvalsdeildinni á sunnudagskvöld.
Chelsea er á toppnum í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar með fullt hús stiga, tólf, eftir fjórar umferðir.