Julen Lopetegui, knattspyrnustjóri West Ham United, kveðst furðu lostinn en himinlifandi að sóknarmaðurinn Michail Antonio hafi sloppið eins vel og hann gerði eftir að hafa lent í alvarlegu bílslysi í Essex á Englandi síðastliðinn laugardag.
Antonio fótbrotnaði og gekkst undir skurðaðgerð degi síðar. Er hann lemstraður út um allt enda ná meiðsli jamaíska landsliðsmannsins ekki einungis til fótbrotsins. Verður hann á sjúkrahúsi næstu vikur.
„Við ætlum að heimsækja hann í dag eða á morgun. Aðalatriðið er að við erum ánægð því að bati hans gengur vel. Við eigum í góðu sambandi við hann og fjölskyldu hans og óskum honum alls hins besta næstu daga.
Bestu fréttirnar af Michail Antonio voru þær að hann gat talað við okkur fyrir leikinn gegn Wolves [á mánudag] því þegar maður sér myndir af bílslysinu er það kraftaverk að það sé í lagi með hann.
Hann er sterkur og mun láta sér batna á næstu mánuðum, kemur sér í lag sem karlmaður fyrst og svo sem leikmaður,“ sagði Lopetegui á fréttamannafundi í dag.