Missir fyrirliðabandið eftir slagsmál

Gary O'Neil og Mario Lemina.
Gary O'Neil og Mario Lemina. AFP/Adrian Dennis

Gary O’Neil, knattspyrnustjóri Wolves, hefur ákveðið að svipta miðjumanninn Mario Lemina fyrirliðabandinu hjá liðinu eftir að sá síðarnefndi missti stjórn á skapi sínu eftir leik gegn West Ham United á mánudagskvöld.

Lemina átti þá í handalögmálum við Jarrod Bowen eftir að kastaðist í kekki milli þeirra í leikslok. Nélson Semedo tekur við fyrirliðabandinu af Lemina hjá Úlfunum.

„Viðræðurnar við Mario voru góðar. Okkur kemur mjög vel saman. Hann hefur verið stór hluti af því sem við höfum áorkað hérna og við virðum hvorn annan mikið.

Stundum er hægt að vera á mjög góðum stað eftir svona viðræður og ég tel það vera tilfellið nú. Ég virði Mario mikils og hverju hann mun geta áorkað áfram.

Hann verður áfram hluti af reyndasta hópnum sem leiðir liðið en í augnablikinu finnst okkur það vera best að Nélson leiði hópinn áfram,“ sagði O’Neil á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert