Enski knattspyrnumaðurinn Callum Wilson hefur orðið fyrir áfalli þar sem hann meiddist illa aftan á læri í síðasta leik með Newcastle United og verður af þeim sökum frá næstu tvo mánuði.
Wilson hefur lítið spilað á tímabilinu þar sem hann var meiddur á baki framan af því og sneri ekki aftur á völlinn fyrr en í síðasta mánuði.
Sóknarmaðurinn hefur aðeins tekið þátt í fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Wilson fann til aftan í læri eftir að hafa spilað 17 mínútur í 4:2-tapi fyrir Brentford síðastliðinn laugardag.
Myndataka leiddi í ljós að um alvarleg meiðsli sé að ræða og að hann megi eiga von á því að snúa aftur í febrúar á næsta ári.