„Sir Alex leit bara í eina átt hjá Manchester United. Horfið fram, leikið fram, komið með fyrirgjafir, skjótið á markið. Þetta fyllti mig miklu öryggi þegar ég var leikmaður og ég vildi og elskaði að spila svona. Þá tilfinningu vil ég byggja upp hjá mínum liðum, mínum leikmönnum.“
Þetta segir Ruud van Nistelrooy, nýbakaður knattspyrnustjóri Leicester City í ensku úrvalsdeildinni, í samtali við miðilinn The Coaches' Voice. Hann lék sem kunnugt er um árabil við góðan orðstír undir stjórn Sir Alex Ferguson hjá United.
Fjallað er um þjálfaraferil Van Nistelrooys í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og meðal annars rætt við leikmaninn Nathangelo Markelo sem gekk til liðs við Van Nistelrooy hjá PSV frá Everton sumarið 2021.
Þegar hann horfir um öxl er Markelo, sem nú leikur með Roda JC, uppfullur af hóli í garð hins nýja knattspyrnustjóra Leicester. „Ég lék eitt ár undir stjórn Ruuds og naut þess í botn,“ segir Markelo, sem var hjá honum í varaliði PSV tímabilið 2021-22. „Hann er sigurvegari af Guðs náð og ef það er eitthvað sem hann þolir ekki, er það að tapa,“ bætir hann við hlæjandi. „Taktískt er hann einn besti þjálfari sem ég hef haft til þessa. Hann lagði mikla áherslu á staðsetningar í leikjum.“
Þess utan er Van Nistelrooy ljúfur í samvinnu, að sögn Markelos. „Eins vægðarlaus og hann getur verið á vellinum, er því þveröfugt farið utan vallar. Hann er alltaf aðgengilegur og boðinn og búinn að veita leikmönnum sínum lið, þurfi þeir á því að halda. Ég vann með Carlo Ancelotti hjá Everton og þeir eiga eitt mikilvægt atriði sameiginlegt: Báðir búa yfir föðurlegri nærveru innan hópsins. Þetta skiptir miklu máli fyrir liðið og fær mann til að leggja aðeins meira á sig fyrir þá.“