Hefur Liverpool fundið arftaka Trents og Salah?

Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold.
Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold. AFP/Paul Ellis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eru sagðir hafa fundið hina fullkomnu arftaka fyrir þá Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah, fari svo að tvímenningarnir yfirgefi enska félagið í sumar.

Alexander-Arnold og Salah verða báðir samningslausir næsta sumar og hafa enn sem komið er ekki viljað skrifa undir nýjan samning í Bítlaborginni, þrátt fyrir að enska félagið hafi boðið þeim báðum nýjan samning.

Alexander-Arnold er uppalinn á Anfield og er varafyrirliði liðsins en Salah gekk til liðs við Liverpool frá Roma, sumarið 2017, fyrir 37 milljónir punda.

Var frábær á síðustu leiktíð

Mark Brus, ritstjóri vefmiðilsins Caught Offside, greindi frá því í hlaðvarpinu Daily Briefing að Richard Hughes, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, horfði til Jeremies Frimpongs til þess að leysa Alexander-Arnild af hólmi.

Frimpong er samningsbundinn Bayer Leverkusen og varð Þýskalandsmeistari með liðinu á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 14 mörk og lagði upp önnur 12 til viðbótar.

Hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp önnur fjögur til viðbótar í 12 leikjum í þýsku 1. deildinni á tímabilinu en hann er verðmetinn á 50 milljónir punda.

Tveir koma til greina

Þá horfir Liverpool til þeirra Leroy Sané, Bayern München, og Khvicha Kvaratskhelia, Napoli, til þess að leysa Salah af hólmi.

Sané þekkir vel til á Englandi eftir að hafa leikið með Manchester City frá 2016 til 2020 en hann hefur verið orðaður við brottför frá Bæjurum og kostar í kringum 60 milljónir punda.

Kvaratskhelia er einungis 23 ára gamall en hann er verðmetinn á 80 milljónir punda. Hann hefur skorað 30 mörk og lagt upp önnur 29 í 105 leikjum með Napoli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert