Amad Diallo var hetjan þegar Manchester United vann magnaðan endurkomusigur á Manchester City, 2:1, í 16. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á heimavelli City í dag.
Með sigrinum er Manchester United komið í tólfta sætið með 22 stig en City er í fimmta með 27.
Josko Gvardiol kom Manchester City yfir á 36. mínútu leiksins með skallamarki eftir fyrirgjöf Kevin De Bruyne sem fór af varnarmanni og beint á kollinn á Króatanum sem stangaði boltann listilega í netið, 1:0.
United-menn fengu fá færi í seinni hálfleik og virtist City ætla að sigla sigrinum heim. Hins vegar á 86. mínútu gerði Matheus Nunes hrikaleg mistök í liði City og United fékk vítaspyrnu.
Þá sendi hann boltann beint á Amad Diallo sem var einn gegn Ederson en fór ekki í skotið. Hann reyndi að fara fram hjá Ederson en þá braut Nunes, sem var kominn til baka, á Amad og Anthony Taylor dómari benti á punktinn.
Á hann steig Bruno Fernandes sem skoraði af öryggi.
Amad Diallo skoraði síðan sigurmark United á 90. mínútu. Þá fékk hann sendingu í gegn frá Lisandro Martínez, vippaði boltanum yfir Ederson og renndi honum í markið, 2:1, og úrslitin ráðin.