Crystal Palace gerði frábæra ferð til Brighton og lagði þar heimamenn í Brighton & Hove Albion, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.
Með sigrinum fór Palace upp úr 17. sæti og í 15. sæti þar sem liðið er með 16 stig. Brighton fer niður í níunda sæti og er enn með 24 stig.
Trevoh Chalobah kom Palace yfir eftir tæplega hálftíma leik eftir sendingu Ismaila Sarr. Skömmu síðar skoraði Sarr sjálfur með skalla eftir fyrirgjöf Tyricks Mitchells frá vinstri.
Átta mínútum fyrir leikslok kórónaði Sarr frábæra frammistöðu sína með öðru marki sínu og þriðja marki Palace. Hann slapp þá í gegn og lagði boltann framhjá Bart Verbruggen í marki Brighton.
Þremur mínútum fyrir leikslok varð fyrirliði Palace, Marc Guéhi, fyrir því óláni að skora sjálfsmark í kjölfar hornspyrnu en það kom ekki að sök og þægilegur sigur gestanna niðurstaðan.