Ekkert með agamál að gera

Alejandro Garnacho og Marcus Rashford voru skildir eftir heima fyrir …
Alejandro Garnacho og Marcus Rashford voru skildir eftir heima fyrir leikinn gegn Manchester City í gær. AFP/Paul Ellis

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Marcus Rashford og Alejandro Garnacho eigi alla möguleika á að vinna sér sæti í liðinu á nýjan leik.

Báðir sóknarmennirnir voru settir út úr leikmannahópi United fyrir grannaslaginn gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær og það vakti að vonum gríðarlega athygli. Hvorugur var meiddur og Amorim sagði eftir leikinn að ekki hefði verið um nein agavandamál að ræða. United vann óvæntan sigur, 2:1, þar sem Amad Diallo var hetjan á lokamínútunum þegar hann krækti í vítaspyrnu og skoraði síðan sigurmarkið.

„Þetta hafði ekkert með agamál að gera, bara ýmis smáatriði. Meðal annars frammistaða á æfingum. Jonny Evans gerði allt rétt og hann er ekki í hópnum. Ef þetta hefði snúist um agamál hefði ég skýrt frá því," sagði Amorim við fréttamenn eftir leikinn.

„Við verðum að setja markið hátt. Þeir verða að berjast fyrir sæti sínu í liðinu og í dag sönnuðum við að við getum sett hvern sem er út úr liðinu og samt unnið.

Ég vil bara gera mína menn betri. Það var búið að reyna þetta svo oft með Rashford, og þegar það gekk ekki nógu vel var um að gera að prófa eitthvað annað. Ef þeir æfa vel ásamt öllum þeim hæfileikaríka hópi sem við höfum, munu þeir báðir gera liðið enn betra. Nú tekur við ný vika, nýtt líf," sagði Portúgalinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert