Leikmaður Chelsea féll á lyfjaprófi

Mykhailo Mudryk í leik með Chelsea.
Mykhailo Mudryk í leik með Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Úkraínski knattspyrnumaðurinn Mykhailo Mudryk, kantmaður Chelsea á Englandi, féll á lyfjaprófi og gæti átt yfir höfði sér langt leikbann.

Í yfirlýsingu frá Chelsea segir að enska knattspyrnusambandið hafi á dögunum haft samband við Mudryk til þess að tilkynna honum að ólöglegt efni hafi fundist í þvagprufu Úkraínumannsins.

Samkvæmt Chelsea gangast allir leikmenn liðsins reglulega undir lyfjapróf og tekur félagið fram að Mudryk segist aldrei viljandi hafa innbyrt ólögleg efni. Chelsea og Mudryk heita fullu samstarfi við yfirvöld til að fá úr því skorið hvað olli því að hann féll á lyfjaprófinu.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu hefur enska knattspyrnusambandið ekki viljað staðfesta hvort Mudryk sé kominn í tímabundið leikbann á meðan frekari rannsókn stendur eða gefa upp hvenær hann gaf þvagprufu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert