Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, þurfti að horfa á leik liðsins gegn Southampton í átta liða úrslitum enska deildabikarsins úr stúkunni á St. Mary's-leikvanginum.
Hollendingurinn tók út eins leiks bann vegna gulra spjalda en hans menn náðu þó að knýja fram enn einn sigurinn, 2:1, og eru komnir í undanúrslit.
„Það var fínt að horfa á leikinn úr stúkunni. Þar var hlýrra en ég á að venjast niðri á hliðarlínunni. En ég vonast til þess að þetta verði eina skiptið sem ég sit þar,“ sagði Slot við BBC eftir leikinn.
„Þetta var ekki auðveldur leikur í svona miklum vindi en sigurinn var mikilvægur. Við viljum halda bikarnum sem liðið vann á síðasta tímabili með Jürgen Klopp við stjórnvölinn. Ég tók ekki þátt í því en það gerðu margir leikmannanna. Liverpool á að berjast um alla bikara,“ sagði Slot enn fremur.
Hann hvíldi marga lykilmanna sinna í gærkvöld en Liverpool mætir Tottenham í úrvalsdeildinni á útivelli á sunnudaginn.