Tottenham vann United í mögnuðum leik

Son Heung-min skoraði mark beint úr hornspyrnu.
Son Heung-min skoraði mark beint úr hornspyrnu. AFP/Ben Stansall

Tottenham er komið áfram í undanúrslit enska deildabikars karla í knattspyrnu eftir sigur á Manchester United, 4:3, í Lundúnum í kvöld. 

Dominic Solanke skoraði tvö mörk í kvöld fyrir Tottenham, Dejan Kulusevski gerði eitt mark og Son Heung-min gerði sigurmarkið beint úr hornspyrnu. Joshua Zirkzee, Amad Diallo og Jonny Evans gerðu mörk Manchester United í leiknum. Þessi úrslit þýða að Tottenham verður í pottinum góða þegar það verður dregið síðar í kvöld í undanúrslitin en einnig verða í pottinum Arsenal, Liverpool og Newcastle.

Leikmenn Tottenham voru ansi sprækir í upphafi leiksins og það kom ekki sérlega á óvart þegar þeir komust yfir á 15. mínútu leiksins.

Þá fengu heimamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Manchester United. James Maddison tók spyrnuna stutt á Son sem gaf á Pedro Porro og hann lét vaða á markið fyrir utan teiginn. Altay Bayindir, markmaður Manchester United, náði að verja skotið út í teiginn og þar var auðvitað mættur Dominic Solanke og hann setti boltann í stöngina og inn og kom Tottenham yfir.

Dejan Kulusevski fékk gott færi til að koma Tottenham í 2:0 á 26. mínútu leiksins en Altay Bayindir varði vel frá honum. Manchester United fékk einnig sín tækifæri í fyrri hálfleik.

Christian Eriksen fékk tvö fín færi í fyrri hálfleik en í bæði skiptin náðu varnarmenn Tottenham að stökkva fyrir skotið. Antony fékk líka fínt færi á 30. mínútu leiksins sem varnarmenn Tottenham náðu einnig að stökkva fyrir.

Það tók leikmenn Tottenham aðeins tæpa mínútu að komast í 2:0 í upphafi seinni hálfleiksins. Þá átti Son fína sendingu á James Maddison sem komst upp að endalínunni og setti boltann fyrir markið. Boltinn fór í Lisandro Martinez og beint til Dejan Kulusevski sem hamraði boltann í netið af stuttu færi.

Dejan Kulusevski kom Tottenham í 2:0.
Dejan Kulusevski kom Tottenham í 2:0. AFP/Ben Stansall

Á 54. mínútu skoraði Dominic Solanke svo þriðja mark Tottenham en þá fékk hann langa sendingu upp völlinn frá Djed Spence, lék á varnarmenn Manchester United, og setti boltann smekklega í hornið og flestir héldu hreinlega að þetta væri komið hjá heimamönnum. Leikmenn Manchester United mættu hreinlega ekki til leiks í upphafi seinni hálfleiks.

En eftir þriðja markið gerði Ruben Amorim þrefalda breytingu á liði sínu. Kobbie Mainoo, Joshua Zirkzee og Amad Diallo komu inn með látum og áttu heldur betur eftir að breyta leiknum. Zirkzee minnkaði muninn í 3:1 á 63. mínútu eftir slæm mistök Fraser Forster í marki Tottenham en hann átti slæma sendingu inn í teig Tottenham sem fór beint á Bruno Fernandes og hann setti boltann strax á Zirkzee sem setti boltann í netið af stuttu færi.

Aðeins sjö mínútum síðar gaf Fraser Forster aftur mark en í þetta skipti fékk hann sendingu frá varnarmanni og var alltof lengi að koma boltanum frá sér og Amad Diallo náði að henda sér fyrir hann og Forster negldi boltanum í Amad og í markið. Staðan því orðin 3:2 og nógur tími eftir.

Joshua Zirkzee minnkar muninn fyrir Manchester United.
Joshua Zirkzee minnkar muninn fyrir Manchester United. AFP/Ben Stansall

Eftir þetta reyndu leikmenn Manchester United allt sem þeir gátu til að jafna metin og voru oft nálægt því en inn vildi boltinn ekki. Til dæmis fékk Noussair Mazraoui dauðafæri á 74. mínútu en skot hans fór rétt framhjá marki Tottenham.

Á 88. mínútu leiksins fékk Tottenham hornspyrnu. Son Heung-min tók hornspyrnuna og gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnunni. Altay Bayindir, markvörður Manchester United, átti klárlega að gera betur þarna.

Þrátt fyrir þennan skell héldu leikmenn Manchester United áfram að sækja og þeir náðu að minnka muninn í 4:3 á fjórðu mínútu uppbótartímans þegar Jonny Evans skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. En lengra komust gestirnir ekki og því lokatölur á Tottenham Hotspur Stadium 4:3 fyrir Tottenham.

Tottenham er sem sagt komið í undanúrslit í enska deildarbikarnum ásamt Arsenal, Liverpool og Newcastle. Það verður dregið í undanúrslit síðar í kvöld. Í undanúrslitum spila liðin tvo leiki, bæði heima og að heiman. Leikirnir í undanúrslitum verða spilaðir 7.-8. janúar og 4.-5. febrúar. Úrslitaleikurinn fer svo fram á Wembley Stadium sunnudaginn 16. mars.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

LASK 1:1 Víkingur R. opna
90. mín. Karl Friðleifur Gunnarsson (Víkingur R.) fær rautt spjald Annað gult spjald og brot á leikmanni sem var að komast að vítateignum hægra megin!

Leiklýsing

Tottenham 4:3 Man. United opna loka
90. mín. Djed Spence (Tottenham) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert