Liverpool lagði Tottenham í níu marka leik

Liverpool hafði betur gegn Tottenham, 6:3, í ótrúlegum leik í ensku úrvalsdeildinni í Lundúnum í dag.

Úrslitin þýða að Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar yfir jólin með 39 stig. Tottenham er í 11. sæti með 23 stig.

Liverpool byrjaði viðureignina af miklum krafti og var mikil orrahríð að marki Tottenham á fyrstu 20 mínútunum.

Luis Díaz kom Liverpool yfir á 23. mínútu. Trent Alexander-Arnold kom með stórkostlega sendingu inn á teig Tottenham, beint á Díaz sem stangaði boltann í netið.

Á 36. mínútu tvöfaldaði Alexis Mac Allister forystu Liverpool. Fyrirgjöf Andrew Robertson rataði á Dominik Szoboszlai sem skallaði boltann á Mac Allister sem skallaði síðan boltann í netið af stuttu færi. 

Aðeins fimm mínútum síðar tapaði Mac Allister boltanum rétt fyrir utan teig Liverpool. James Maddison tók boltann og skoraði með góðu skoti í hægra hornið, 2:1. 

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Dominik Szoboszlai þriðja mark Liverpool. Mohamed Salah keyrði upp að teig Tottenham, sendi boltann inn fyrir á Szoboszlai sem skoraði.

Staðan í hálfleik var því 3:1 fyrir Liverpool.

Yfirburðir Liverpool héldu áfram í síðari hálfleik og kom fjórða mark Liverpool á 54. mínútu. Eftir hraða skyndisókn datt boltinn fyrir Salah í markteignum sem skoraði í autt markið.

Salah skoraði annað mark sitt í leiknum og það fimmtánda á tímabilinu á 61. mínútu. Szoboszlai renndi boltanum fyrir markið á Salah sem skoraði.

Svíinn Dejan Kulusevski minnkaði muninn á 72. mínútu með glæsilegu marki. Dominic Solanke lyfti boltanum yfir vörn Liverpool á Kulusevski sem skoraði með viðstöðulausu skoti. 

Solanke náði að laga stöðuna aðeins fyrir Tottenham á 83. mínútu. Varamaðurinn Brennan Johnson skallaði boltann fyrir markið á Solanke sem skoraði.

Aðeins tveimur mínútum síðar kom níunda mark leiksins. Salah lagði boltann á Díaz sem skoraði með góðri afgreiðslu úr þröngu færi.

Mörkin urðu ekki fleiri í þessum svakalega leik og lokaniðurstaða því 6:3-sigur Liverpool.

 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Tottenham 3:6 Liverpool opna loka
90. mín. Liverpool fær hornspyrnu +5
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert