Bournemouth niðurlægði Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag en leikurinn endaði 3:0. Chelsea tapaði stigum í toppbaráttunni þegar liðið gerði markalaust jafntefli gegn Everton.
Bournemouth fór upp í fimmta sætið með sigrinum en liðið er með 28 stig eftir 17 leiki. United er með 22 stig í 13. sæti.
Gestirnir komust 1:0 yfir þegar hálftími var liðinn af leiknum en Dean Huijsen skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu sem Ryan Christie tók upp við hliðarlínuna en það var eina mark leiksins í fyrri hálfleik.
Bournemouth fékk svo vítaspyrnu þegar klukkustund var liðinn af leiknum en Noussair Mazraoui var allt of seinn í tæklingu á Justin Kluivert inni í vítateig. Kluivert fór sjálfur á punktinn, sendi Andre Onana í vitlaust horn og boltann í markið.
Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Antoine Semenyo þriðja mark Bournemouth eftir flotta fyrirgjöf frá Dango Ouattara, hárnákvæm sending niðri á Semenyo sem var einn í miðjum vítateig United og setti boltann í netið.
Everton og Chelsea gerðu markalaust jafntefli í Liverpool-borg í dag. Chelsea gat tekið toppsætið af Liverpool sem er með 36 stig en Chelsea er ekki í öðru sæti með 35 stig og Liverpool á tvo leiki til góða. Everton er með16 stig í 15. sæti.