Marcus Rashford er ekki í leikmannahópi Manchester United sem mætir Úlfunum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag.
Þetta er fjórði leikurinn í röð þar sem Ruben Amorim, knattspyrnustjóri United, velur hann ekki í hópinn þrátt fyrir að Rashford sé heill heilsu.
„Þegar rétta augnablikið kemur þá mun ég breyta einhverju. Þangað til mun ég halda áfram að gera það sem ég tel vera best fyrir liðið,“ sagði Amorim.
„Ég tala við hann alla daga, ekki um viðtalið heldur frammistöðu hans. Hann vill spila og er að reyna en þetta er mín ákvörðun,“ sagði Amorim en Rashford fór í viðtal í síðustu viku þar sem hann sagðist tilbúinn að yfirgefa Manchester United sem Amorim var ósáttur með.