Fulham sigraði Chelsea, 2:1, í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag en sigurmark Fulham kom á fimmtu mínútu uppbótartímans.
Chelsea er í öðru sæti í deildinni en eftir tapið í dag er liðið fjórum stigum á eftir toppliði Liverpool sem á tvo leiki til góða. Fulham er í áttunda sæti með 28 stig.
Cole Palmer kom Chelsea yfir eftir aðeins stundarfjórðung en Levi Colwill lagði markið upp. Staðan var 1:0 fyrir Chelsea í hálfleik og alveg fram að 82. mínútu þegar Harry Wilson jafnaði metin fyrir Fulham.
Rodrigo Muniz skoraði svo sigurmark Fulham í uppbótartíma leiksins. Robert Sánches. markmaður Chelsea, sendi boltann upp völlinn en hann endaði hjá varnarmanni Fulham, Timothy Castagne, og Fulham-menn sóttu hratt. Muniz setti svo boltann í markið eftir fyrirgjöf frá Sasa Lukic og leikurinn endaði 2:1.
Newcastle sigraði Aston Villa 3:0, og fór upp í fimmta sætið með sigrinum. Aston Villa er með 28 stig í áttunda sæti en aðeins stigi á eftir Newcastle.
Anthony Gordon kom Newcastle yfir þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af leiknum eftir stoðsendingu frá Joelinton.
Á 32. mínútu fékk Jhon Duran beint rautt spjald fyrir að stíga óvart á rassinn á Fabian Schär þegar þeir duttu eftir samstuð og Villa var marki undir og manni færri í hálfleik.
Alexander Isak skoraði annað mark Newcastle á 59. mínútu og Joelington bætti þriðja marki Newcastle við á fyrstu mínútu uppbótartímans og leikurinn endaði 3:0.
Nottingham Forest sigraði Tottenham 1:0 en sigurmarkið skoraði Anthony Elanga á 28. mínútu.
Forest hefur verið að skiptast á við Arsenal að vera í þriðja sæti en aðeins einu stigi munar á liðunum í þriðja og fjórða sæti en Arsenal á leik til góða. Tottenham hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum og er í 11. sæti með 23 stig.
Bournemouth og Crystal Palace gerðu markalaust jafntefli. Bournemouth er í sjötta sæti með 29 stig og Crystal Palace er í 16. með 17 stig.
West HAm sigraði Soputhampton 1:0 en Hamrarnir misstu tvo lykilleikmenn af velli í fyrri hálfleik.
Jarrod Bowen skoraði sigurmark West Ham eftir stoðsendingu frá Niclas Fulkrug á 59. mínútu.