Lukasz Fabianski, markvörður West Ham United, varð fyrir því óláni að fá þungt höfuðhögg þegar hann lenti í samstuði við Nathan Wood, miðvörð Southampton, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Fabianski fékk langa aðhlynningu í kjölfarið, hún varði í um átta mínútur, og var svo borinn af velli.
Julen Lopetegui, knattspyrnustjóri West Ham, sagði á fréttamannafundi eftir leik að líðan pólska markvarðarins væri eftir atvikum góð.
Hann fékk þungt höfuðhögg og sömuleiðis högg við hálsinn. Sem betur fer er hann með meðvitund og getur tjáð sig. Læknarnir segja að honum líði betur.
Við vorum mjög áhyggjufullir en sem betur fer fengum við góðar fréttir, sagði Lopetegui.