Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham verður mögulega án miðvarðar þegar liðið mætir Wolves næstkomandi sunnudag.
Radu Dragușin meiddist í 1:0-tapi liðsins gegn Nottingham Forest í síðasta leik en hann myndaði miðvarðarpar Tottenham í leiknum ásamt 18 ára miðjumanninum Archie Gray.
Óvíst er hvort Dragușin geti spilað og Ben Davies fékk bakslag í sínum meiðslum en hann er nálægt því að spila.
Miðverðirnir Micky van de Ven og Cristian Romero eru einnig að glíma við meiðsli.
Auk þeirra verður varnarmaðurinn Djed Spence í leikbanni en hann fékk rautt spjald gegn Forest. Aðalmarkmaður Tottenham, Guglielmo Vicario, er ökklabrotinn og verður frá þar til í mars.
„Það hafa komið upp meiðslavandamál en aldrei af þessum skala. Það hefur vantað í kringum tíu byrjunarliðsleikmenn hjá okkur í smá tíma,“ sagði Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham.