Heppinn að sleppa við rautt spjald?

Joao Pedro og Yehor Yarmoliuk í leiknum í gær.
Joao Pedro og Yehor Yarmoliuk í leiknum í gær. Skjáskot

Brentford og Brighton gerðu markalaust jafntefli í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í gær og knattspyrnustjórar liðanna voru ósammála eftir leik hvort það hefði átt að reka Joao Pedro, leikmann Brighton, af velli.

Yehor Yarmoliuk togaði í Pedro til þess að stöðva skyndisókn og Pedro svaraði með því að sveifla olnboga í áttina að honum. Yarmoliuk fékk gult spjald fyrir hans brot en Pedro fékk ekki spjald.

„Ég skil reglurnar þannig að þú mátt ekki sveifla handlegg í áttina að einhverjum til þess að lemja, hvort sem þú hittir eða ekki,“ sagði Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, eftir leikinn.

Fabian Hurzler, knattspyrnustjóri Brighton, var ekki sammála Frank.

„Ég sé þetta öðruvísi. Mér finnst þetta ekki vera rautt spjald, af hverju ætti þetta að vera rautt spjald? Hann er bara að reyna að komast frá honum,“ sagði Hurzler.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka