Ronaldo um United: Þjálfararnir ekki vandamálið

Rúben Amorim og Cristiano Ronaldo.
Rúben Amorim og Cristiano Ronaldo. Ljósmynd/Samsett

Cristiano Ronaldo hefur lýst yfir stuðningi við landa sinn Rúben Amorim sem tók við sem stjóri Manchester United fyrir rúmum mánuði.

„Hann gerði frábærlega í Portúgal með mínu liði Sporting,“ sagði Ronaldo um Amorim. „En enska úrvalsdeildin er öðruvísi skepna, sterkasta deild í heiminum,“ bætti Portúgalinn við.

Gengi Manchester United hefur verið brösuglegt en liðið situr í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég vissi að þetta yrði erfitt og stormurinn myndi halda áfram. En stormurinn mun taka enda og sólin mun rísa,“ sagði Ronaldo.

„Ég krossa fingur að þetta fari vel hjá honum og ég óska Manchester United alls hins besta, þetta er félag sem ég elska,“ sagði Ronaldo. 

Telur að þjálfararnir séu ekki vandamálið

Amorim er sjöundi stjórinn sem Manchester United hefur ráðið síðan Sir Alex Ferguson hætti með liðið árið 2013. Ronaldo telur að þjálfararnir séu ekki vandamálið.

„Ég sagði þetta fyrir einu og hálfu ári síðan og ég mun halda áfram að segja það, vandamálið er ekki þjálfararnir,“ sagði Ronaldo.

„Þetta er eins og fiskabúr. Þú ert með fisk inni og hann er veikur, og ef þú tekur hann út þá leysirðu vandamálið.

Ef þú setur hann aftur í fiskabúrið mun hann verða aftur veikur. Þetta er sama vandamál og hjá Manchester United,“ sagði Ronaldo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka