Tottenham og Wolves skildu jöfn, 2:2, í 19. umferð ensku úrvalsdeildar karla í fótbolta í dag.
Hwang Hee-Chan kom Wolves yfir á sjöundu mínútu. Rodrigo Bentancur jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar.
Undir lok fyrri hálfleiks fékk Tottenham víti. Heung-Min Son fór á punktinn en José Sá varði frá honum.
Tottenham tók forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Walesverjinn Brennan Johnson skoraði.
Norðmaðurinn Jørgen Strand Larsen jafnaði metin fyrir Wolves á 87. mínútu. Lokaniðurstaðan var því 2:2-jafntefli.
Tottenham er í 11. sæti með 24 stig en Wolves er í 17. sæti með 16 stig.
Nottingham Forest er komið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2:0-sigur gegn Everton í dag.
Chris Wood kom Forest yfir á 15. mínútu og Morgan Gibbs-White innsiglaði sigurinn á 61. mínútu.
Everton situr í 16. sæti með 17 stig.
Fulham og Bournemouth gerðu 2:2-jafntefli í hörkuleik í Lundúnum í dag.
Raul Jiménez skoraði eina mark fyrri hálfleiksins og var staðan 1:0 fyrir Fulham í hálfleik.
Evanilson jafnaði metin snemma í síðari hálfleik. Á 72. mínútu komst Fulham yfir á ný eftir mark frá Harry Wilson.
Dango Ouattara jafnaði fyrir Bournemouth og endaði leikurinn með 2:2-jafntefli.
Að lokum vann Crystal Palace mikilvægan sigur gegn Southampton, 2:1, í Lundúnum í dag.
Nýliðarnir tóku forystuna á 14. mínútu þegar Tyler Dibling skoraði. Trevoh Chalobah jafnaði metin fyrir Palace á 31. mínútu og var jafnt í hálfleik, 1:1.
Eberechi Eze skoraði sigurmark Palace á 52. mínútu. Lokaniðurstaða var 2:1-sigur Palace.
Crystal Palace er með 20 stig í 15. sæti en Southampton er á botninum með sex stig.