Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkenndi að hann finndi fyrir létti fremur en gleði eftir að liðið vann kærkominn sigur á nýliðum Leicester City, 2:0, í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Liðið hafði ekki unnið í fimm deildarleikjum í röð fyrir sigurinn í gær. Aðeins var um annan sigur Englandsmeistaranna í 14 síðustu leikjum í öllum keppnum.
„Það er bara léttir. Það er orðið sem ég get notað um hvernig okkur líður öllum. Við höfum áorkað ótrúlegum hlutum og nú eigum við erfitt með að vinna leiki.
Því er það einungis léttir sem við erum að upplifa núna,“ sagði Guardiola í samtali við Match of the Day á sjónvarpsstöðinni BBC.