Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool fá meiri tíma með fjölskyldum sínum eftir að Hollendingurinn Arne Slot tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í sumar.
Virgil van Dijk, fyrirliði liðsins, greindi frá þessu í samtali við enska götublaðið Mirror en hann gekk til liðs við félagið í janúar árið 2018 frá Southampton.
Venjan hjá félaginu, undir stjórn Klopp, var að liðið kom alltaf saman á Titanic-hótelinu í Liverpool, bæði fyrir heima- og útileiki liðsins í deildinni, en það hefur nú breyst.
„Það eru nýjar reglur núna og leikmennirnir eru mjög ánægðir með þessa reglu,“ sagði van Dijk í samtali við Mirror.
„Ég sef alltaf best í mínu eigin rúmi og ég er líka kominn á þann stað á mínum ferli að ég vil verja eins miklum tíma heima hjá mér og ég get.
Bæði ég og aðrir leikmenn liðsins erum með réttu tólin og tækin fyrir góða endurheimt þannig að við erum alltaf ferskir fyrir leikina,“ bætti van Dijk við.