Gætu átt von á nýrri kæru

Ruud van Nistelrooy er knattspyrnustjóri Leicester.
Ruud van Nistelrooy er knattspyrnustjóri Leicester. AFP/Darren Staples

Enska knattspyrnufélagið Leicester City gæti átt yfir höfði sér kæru frá ensku úrvalsdeildinni fyrir brot á fjármálareglum deildarinnar.

Félagið var einnig kært á síðasta ári en þar sem Leicester var í B-deildinni þegar úrvalsdeildin kærði komst sjálfstæður dómstóll að því að deildin hafði ekki rétt til að refsa félaginu.

The Guardian greinir frá að félagið fái að vita það fyrir 13. janúar hvort það verði kært. Ekki er leyfilegt að tapa meira en 105 milljónum punda yfir þriggja ára tímabil.

Leicester tapaði 92,5 milljónum punda árið 2022 og 90 milljónum punda ári síðar. Því er líklegra að félagið eigi yfir sér nýja kæru, þótt ekki sé reiknað með eins miklu tapi fyrir árið 2024.

Félagið seldi Harvey Barnes til Newcastle fyrir 38 milljónir punda og Timothy Castagne til Fulham á 15 milljónir punda. Þá fékk félagið 10 milljónir punda er Chelsea nældi í knattspyrnustjórann Enzo Maresca, sem kom Leicester upp í úrvalsdeildina á síðustu leiktíð.

Stig voru dregin af Everton og Nottingham Forest á síðustu leiktíð fyrir svipuð brot. Leicester má ekki við slíku, þar sem liðið er í fallsæti með 14 stig eftir 19 leiki og tveimur stigum frá öruggu sæti.

Fari svo að Leicester falli á félagið væntanlega yfir höfði sér kæru frá EFL, sem sér um B, C og D-deildir Englands, fyrir brot á fjármálareglum er liðið fór upp um deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka