Manchester United mun tapa um 900 milljónum punda í auglýsingatekjum, fari svo að liðið falli úr ensku úrvalsdeildinni í vor.
Rúben Amorim, nýr knattspyrnustjóri félagsins, sagði eftir enn einn ósigur liðsins, gegn Newcastle, á dögunum að United væri komið í fallhættu en liðið er í fjórtánda sæti af tuttugu liðum og sjö stigum fyrir ofan fallsæti.
Enska dagblaðið Daily Telegraph segir að tap félagsins í auglýsingatekjum við það að falla úr deildinni myndi nema um 900 milljónum punda, eða um 155 milljörðum íslenskra króna.
Þar er vitnað í klásúlu í samningi félagsins við sinn stærsta styrktaraðila, Adidas, þar sem fram komi að fyrirtækið geti rift honum ef United falli úr efstu deild.
Næsti leikur United í úrvalsdeildinni er gegn Liverpool á útivelli á sunnudaginn kemur.