Enn tapar Chelsea stigum

Chelsea tapaði stigum fjórða leikinn í röð.
Chelsea tapaði stigum fjórða leikinn í röð. AFP/Ben Stansall

Chelsea tapaði stigum fjórða leikinn í röð er liðið mætti Crystal Palace á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Urðu lokatölur á Selhurst Park 1:1.

Cole Palmer kom Chelsea yfir á 14. mínútu og var staðan 1:0 allt þar til á 82. mínútu þegar Frakkinn Jean-Philippe Mateta jafnaði og þar við sat.

Chelsea er því áfram í öðru sæti, nú með 36 stig. Palace er í 15. sæti með 21 stig.

Aston Villa fór upp í áttunda sæti með heimasigri á Leicester í grannaslag, 2:1. Leicester er í 19. sæti með 14 stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Ross Barkley heimamönnum yfir á 58. mínútu en fimm mínútum síðar jafnaði Stephy Mavididi. Leon Bailey skoraði svo sigurmark Villa á 76. mínútu.

Þá valtaði Brentford yfir botnlið Southampton á útivelli, 5:0. Bryan Mbeumo gerði tvö mörk fyrir Brentford og þeir Kevin Schade, Keane Lewis-Potter og Yoan Wissa skoruðu einnig. Hákon Rafn Valdimarsson var allan tímann á bekknum hjá Brentford. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert