Newcastle hafði betur gegn Tottenham

Alexander Isak skoraði sigumark Newcastle í dag.
Alexander Isak skoraði sigumark Newcastle í dag. AFP/Adrian Dennis

Newcastle sigraði Tottenham 2:1 í 20. umferð í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í London í dag.

Newcastle er í fimmta sæti deildarinnar með 35 stig, jafn mörg og Chelsea í fjórða sæti en Tottenham er í 11. sæti með 24 stig og hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum liðsins.

Það tók enska sóknarmanninn Dominik Solanke aðeins fjórar mínútur að koma Tottenham yfir en hann skallaði boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Pedro Porro.

Anthony Gordon jafnaði metin fyrir Newcastle aðeins tveimur mínútum síðar eftir sendingu í gegn frá Bruno Guimares. Lucas Bergvall, miðjumaður Tottenham, reyndi að senda boltann inn á miðjuna en sendingin fór í höndina á Joelinton og Newcastle sótti hratt og skoraði. Eftir VAR skoðun staðfestu myndbandsdómarar leiksins að höndin var í náttúrulegri stöðu og upp við líkamann svo markið var gilt.

Gordon hefur lagt upp mark eða skorað í síðustu fimm leikjum sínum í ensku deildinni.

Á 38. mínútu skoraði sænski landsliðsmaðurinn Alexander Isak sigurmark Newcastle. Jacob Murphy sendi boltann inn í teig og Radu Dragusin, varnarmaður Tottenham, náði ekki að koma boltanum frá og Isak setti boltann í netið.

 Tottenham var með yfirhöndina í seinni hálfleik og fékk nokkur tækifæri til þess að jafna leikinn en það tókst ekki og leikurinn endaði 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert