Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir Jack Grealish verða að berjast fyrir sæti sínu í byrjunarliðinu.
Grealish hefur ekki átt góðu gengi að fagna hjá liðinu á tímabilinu og skoraði til að mynda ekki eitt einasta mark fyrir Man. City á síðasta ári þrátt fyrir að spila sem kantmaður og sóknartengiliður.
Hefur hann verið í aukahlutverki á yfirstandandi tímabili en Grealish var lykilmaður þegar Man. City vann þrennuna árið 2023.
„Savinho er í betra formi og betri á allan hátt en Jack og þess vegna spilaði ég Savinho. Vil ég þann Jack sem vann þrennuna? Já, ég vil það en ég reyni að vera heiðarlegur við sjálfan mig hvað það varðar.
Þeir verða að berjast. Þið getið sagt að það sé ósanngjarnt. Ef ykkur finnst það er það í lagi en þeir þurfa að sanna sig fyrir mér,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi eftir 4:1-sigur Man. City á West Ham United á laugardag.